Saturday

Spirited Away




Spirited away er japönsk anime-mynd sem ég sá fyrst fyrir u.þ.b. tveimur árum. Ég verð að viðurkenna að í fyrstu leist mér ekki vel á hana. Mér fannst pirrandi hversu hratt sagan vatt ofan af sér og ég fílaði heldur ekki alveg aðalpersónuna, Chihiro. Þegar hins vega líður á myndina breyttist þetta álit því myndin er bæði mjög falleg og dregur áhorfandann inn í magnaðan ævintýraheim. Myndin var gerð árið 2001 af Studio Ghibli sem er anime studio í Japan. Hayao Miyazaki skrifaði myndina og leikstýrði henni en hann er frægur anime leikstjóri og hefur leikstýrt mörgum frægum anime myndum. Árið 2002 vann myndin Óskarsverðlaun fyrir "Best Animated Feature" eða bestu teiknimyndina.

Myndin segir frá Chihiro sem er 10 ára dekruð nútíma japönsk stelpa sem er að flytja með foreldrum sínum. Á leiðinni í nýja húsið villast þau og koma að stórri gamalli byggingu sem falin er á milli trjáa inni í skóginum. Þau ganga inn í bygginguna inn um dimm göng til að forvitnast um hvað sé á hinum enda ganganna. Þar virðist svo vera gamall og yfirgefinn skemmtigarður. Þau ganga lengra inn í skemmtigarðinn sem virðist algerlega yfirgefin. Þegar þau koma að götu með veitingahúsum sjá þau að þar eru borðin drekkhlaðin af nýelduðum mat. Chihiro er smeyk við þennan yfirgefna stað og neitar að snerta matinn en foreldrar hennar setjast og troða í sig. Á meðan röltir Chihiro aðeins frá þeim og hittir strák. Strákurinn virðist kannast við hana og um leið og hann sér hana bregður honum og skipar henni að flýja samstundis með foreldrum sínum. Chihiro verður hrædd og hleypur af stað en það er um seinann. Hún kemst að því að foreldrar hennar hafa breyst í svín og leiðin að útgangnum er orðin að risavöxnu fljóti. Strákurinn kemur henni svo til hjálpar og hún lærir smátt og smátt að þrífast í þessum nýja undarlega heimi.

Myndin er talin vera táknsaga og tákna þroska mannsins frá barni til fullorðins. Í upphafi er Chihiro dæmigerður nútíma, dekraður krakki sem hefur alltaf fengið allt upp í hendurnar og aldrei þurft að leggja hart að sér. Þegar líður svo á myndina þroskast hún og lærir ýmislegt eins og að elska og að vinna. í myndinni er líka mjög falleg tónlist og hefur hún hlotið ýmis verðlaun. Myndin var gefin út upprunalega í Japan en hefur verið þýdd og er hægt að nálgast hana á DVD með ensku tali.

Hér er trailerinn:

2 comments:

Siggi Palli said...

Fín færsla. 5 stig.

Ansi góð mynd, og líka fyrsta Miyazaki myndin sem ég sá, þ.a. hún verður alltaf eftirminnileg fyrir þær sakir. Mér finnst einhvern vegin skemmtilegra að sjá þessar myndir með japönsku tali. Veit ekki af hverju...

Jói said...

Já ég þarf að prófa það