Myndin byrjar á því að Adam Pedersen, nýnasisti, stígur út úr rútunni og Ivan prestur kemur á bílnum sínum að sækja hann. Adam er alveg sköllóttur og með hakakrossinn húðflúraðann á hendina á sér og með reiðilegan svip þegar Ivan byrjar að tala við hann. Adam svarar honum ekki þegar Ivan reynir að tala við hann heldur bara eltir hann inn í bíl og þeir keyra af stað. Þegar komið er að kirkjunni kemur í ljós að hjá prestinum eru tveir aðrir afbrotamenn að afplána samfélagsþjónustu, annar fyrrum kynferðisafbrotamaður og tennismeistari og hinn innflytjandi frá Sádí-Arabíu sem stungið var inn fyrir rán á bensínstöðvum. Bæði afbrotamennirnir og presturinn virðast eiga við geðræn vandamál að stríða og er það meðal annars það sem gerir myndina mjög fyndna.
Snemma í sögunni bætist við persóna sem er kona sem er ólétt og á við drykkjuvandamál að stríða. 60% líkur eru taldar á því að barn hennar verði þroskaheft þegar það fæðist og hún íhugar í sífellu að fara í fóstureyðingu. Stórt eplatré er í garði kirkjunnar og spilar það stóran part í myndinni. Í upphafi dvalar Adams setur presturinn honum markmið sem hann á að ná og er það hluti af betrunarferli Adams. Presturinn spyr hann hvað hann vilji hafa sem markmið og Adam svarar tómri þvælu og gerir grín af prestinum. Hinsvegar tekur Ivan þessu alvarlega og setur Adam það markmið að baka eplaköku með eplum af trénu í garðinum. Tréð í garðinum verður hinsvegar í sífellu fyrir skakkaföllum og telur presturinn það vera prófun á þrautseygju Adams.
Ivan prestur er sérstakur á þann hátt að hann sér einungis jákvæða hlið á öllu sem gerist, hvað sem það er. Í ljós kemur svo að hann hafði átt erfitt uppdráttar og meðal annars misst konuna sína. Aðspurður að þessu svarar hann því að guð sé alltaf að prófa dyggð mannsins með þrekraunum og áföllum. Adam sér hinsvegar bara það slæma og reynir hvað hann getur að keyra sín sjónarmið í gegn. Adam er bitur maður og reynir allt hvað hann getur að láta Ivan prest sjá hið slæma í tilverunni og endar það á því að hann beitir til þess ofbeldi.
Eftir því sem myndin þróast verður hún meira spennandi og áhorfandinn sogast inn í atburðarásina. Myndin er einnig hjartnæm og í henni er kolsvartur húmor. Í myndinni eru líka skemmtilegar persónur eins og Dr. Kolberg sem er læknir í nágrenninu sem sögupersónurnar fara til þegar á lækni er þörf. Hann virðist vera mjög hæfur sem læknir á þann hátt að hann virðist kunna sitt fag. Hinsvegar er hann kaldhæðinn og virðist enga samúð hafa með sjúklingum sínum. Einnig er mjög gaman af Khalid (innflytjandinn sem rændi bensínstöðvar) en hann er mjög orðljótur og gerir allt í sínu valdi til að klekkja á bensínstöðvakeðjunni Statoil. Khalid er sannfærður um að þeir hafi komið föður sínum á hausinn með því að hafa af honum landsvæði sem voru mikils virði sökum 0líu, í Sádí-Arabíu.
Ég mæli tvímælalaust með þessari mynd fyrir alla. Sjálfur er ég búinn að horfa á hana tvisvar og í bæði skiptin fengið hroll af hrifningu.
Hér er trailer-inn fyrir myndina